Hnúfubakur
|
|
Lengd |
15 m |
Þyngd |
40 t |
Blástur |
3 m |
Öndun |
5 – 15 mín |
Dýpi |
? |
Fæða |
ljósáta, loðna, síld, smár fiskur |
Hámarksaldur |
a.m.k. 50 ár |
Staða stofns |
talin viðkvæm en stofninn er vaxandi |
Hnúfubakurinn er stór og þreklegur, nokkuð kubbslega vaxinn, svartur eða dökkgrár á baki en kviður getur verið allt frá alsvörtu yfir í alhvítan, algengast er að svart og hvítt myndi óreglulegt litamynstur á kvið. Helstu einkenni eru afar löng bægsli um 1/3 af búklengdinni og sporðurinn, svartur að ofan með mjög breytilegu litamynstri að neðan. Mynstrið neðan á sporðblöðkunni er einstaklingsbundið og notað til að greina að einstaklinga. Sporðblaðkan er breið, með djúpa skoru og er aftari brún hennar óreglulega tennt. Horn hnúfubaksins er aftarlega, um 2/3 af lengd frá trýni og er breytilegt að stærð og lögun, oft lítið. Hornið situr á einskonar upphækkun eða hnúð á bakinu en af honum dregur hvalurinn nafn sitt. Á höfði og neðrikjálka eru hringlaga hnúðar og stórir hrúðurkarlar eru áberandi á haus, bægslum og við kynfæri. Ásætur setjast á kálfana og halda sig þar alla ævi dýrsins.
Hnúfubakar eru oftast einfarar eða halda sig í litlum, óstöðugum hópum. Fyrir köfun lyfta hnúfubakar alltaf sporðinum svo lögun og mynstur á neðri hlið er vel greinanlegt. Á fartíma og fengitíma gefa tarfarnir frá sér fjölbreytileg hljóð til að laða að sér kýr, hljóðunum hefur verið líkt við fuglasöng og er söngurinn breytilegur eftir hafsvæðum. Hnúfubakar eru afar fjörugir í vatnsyfirborðinu, velta sér, reka hausinn upp úr vatninu, stökkva eða slá með bægslum eða sporði margsinnis í yfirborðið.
Far og fæðuöflun
Þó hnúfubakar oftast einfarar vinna þeir stundum saman að veiði. Nokkrir einstaklingar vinna saman og umkringja fiskitorfur um leið og þeir búa til mikið af loftbólum, einskonar loftbólunet sem fangar fiskinnFar hnúfubaka og dvalarsvæði á veturna eru vel þekkt. Þeir ferðast um 6.000 km aðra leiðina og er það eitt lengsta, þekkta far spendýra.
Veiðar og stofnstærð
Hnúfubakar voru veiddir í miklum mæli á 20. öldinni og fækkaði þá verulega, hnúfubakar hafa verið alfriðaðir frá 1966 og fer stofninn hægt vaxandi. Talið er að í Norður-Atlantshafi séu um 11.500 dýr og heildarstofnstærð á heimsvísu sé 70.000 til 100.000 dýr.