Hvalasafnið er staðsett í litlu fallegu sjávarþorpi á norðurhluta Íslands, Húsavík. Húsavík er gjarnan kölluð hvalahöfuðborg Íslands, enda vinsæll áfangastaður fyrir hvalaskoðun.
Safnið er eitt fárra safna í veröldinni sem er sérstaklega tileinkað hvölum og veröld þeirra. Fjölbreyttar sýningar gefa gestum djúpa innsýn í veröld þessara mikilfenglegu spendýra og hlutverk þeirra í vistkerfum hafsins. Sýningarnar innihalda meðal annars 13 beinagrindur af hvölum, gagnvirka sýningartækni, kvikmyndir og áhugaverðar frásagnir af hvölum og sambandi okkar við þá í gegnum aldirnar. Gestir fræðast um þróunarsögu, líffræði og hegðun hvala, sögu hvalveiða við Ísland, verndun hvalastofna og hafsvæða svo fátt eitt sé nefnt.
Markmið safnsins er að miðla upplýsingum um hvali og búsvæði þeirra í gegnum sýningar og safnafræðslu á hagnýtan og áhugaverðan hátt.