Sem hluti af samstarfsverkefni Hvalasafnsins og Hvalveiðisafnsins í New Bedford, stóð safnið fyrir lestrarmaraþoni síðastliðinn laugardag.
Þátttakendur voru 10 nemendur í Framhaldsskólanum á Húsavík, sem einnig taka þátt í verkefninu fyrir hönd Hvalasafnsins. Lesið var upp úr hvalatengdum bókmenntum eins og Moby Dick, Keikó og Gosi og hvalurinn.
Maraþonið er fyrsti af þremur viðburðum sem samstarfssöfnin halda, en auk maraþonsins munu þau heiðra hval með fjölskylduhátið og verður það gert í tilefni af opnun nýrrar steypireyðarsýningar á Húsavík. Þriðji viðburðurinn er svo fjöruhreinsunardagur þar sem áhersla er lögð á tengsl og ábyrgð manns við hafið og lífríki þess.
Lestrarmaraþonið tókst með eindæmum vel og lásu nemarnir í 12 klukkustundir, samfleytt. Þegar maraþonið var um hálfnað, tengdust viðstaddir Hvalveiðisafninu í New Bedford í gegnum skype og opnuðu Húsvísku nemarnir 2ja tíma barnalestrarmaraþon með því að lesa fyrsta kaflann í Moby Dick á íslensku.
Á meðan á maraþoninu stóð seldu nemarnir kaffi og heimabakað, en einnig boli sem þeir höfðu sjálfir hannað sem hluti af verkefninu og poka með lógói verkefnisins.Allur ágóði af sölunni rann í ferðasjóð verkefnisins.