Eins og greint var frá á dögunum hefur hvalaskoðunarvertíðin farið vel af stað á Húsavík. Ferðir hófust hjá Norðursiglingu og Gentle Giants í mars og hefur aðsókn verið með ágætum. Sömu sögu er að segja af Hvalasafninu sem er nú opið daglega og hefur gestum verið að fjölga jafnt og þétt.
Hvalasafninu hefur nú borist liðsauki; Egill P. Egilsson, fjölmiðlafræðingur hefur verið ráðinn í ýmis tímabundin sérverkefni og verður starfsfólki safnsins innan handar næstu vikurnar. Vorverkin eru komin á fullan skrið enda þarf í mörg horn að líta fyrir stórvertíðina.
Hvalasafnið á tímamótum
Í sumar eru 20 ár liðin frá því Hvalamiðstöðin á Húsavik var formlega opnuð, sem síðar varð að Hvalasafninu sem við þekkjum í dag. Af því tilefni verður mikið um dýrðir. Þar ber hæst sérstök afmælis-sögusýning þar sem saga safnsins er rakin í máli, munum og myndum. Þá er hafinn undibúningur fyrir formlega afmælishátíð í tilefni af tímamótunum. Ekki hefur verið ákveðin endanleg dagsetning fyrir hátíðina en gera má ráð fyrir að hún verði haldin í kringum mánaðarmót júní-júlí.
Heiðursgestir hátíðarinnar eru nokkrir heimsfrægir fræðimenn og náttúruverndarsinnar sem allir voru viðstaddir opnun Hvalamiðstöðvarinnar árið 1998. Þeir munu einnig halda erindi á hátíðinni. Þetta eru Ásbjörn Björgvinsson, ferðamálafrömuður og forsprakki Hvalasafnsins, Erich Hoyt, hvalasérfræðingur og rithöfundur, Mark Carwardine, dýrafræðingur, rithöfundur og sjónvarpsmaður og Richard Sabin, aðalsafnvörður spendýra við Natural History Museum í Bretlandi. „Þetta verkefni leggst vel í mig. Við sjáum fyrir okkur skemmtilega sögusýningu og fjölbreytta afmælisdagskrá enda þykir okkur þessi saga og tímamótin ákaflega merkileg. Það er líka gaman að finna áhugann á safninu erlendis frá, frá fræðimönnum og öðrum velunnurum. Það sýnir okkur svart á hvítu þann sess sem safnið og fræðastarfið hefur skipað í gegnum tíðina hér heima og á alþjóðavettvangi,“ segir Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri Hvalasafnsins á Húsavík.