Síðastliðinn laugardag fóru hvalaskoðunarfyrirtækin Gentle Giants og Norðursigling í sína síðustu hvalaskoðunarferð á árinu 2019. Þar með lauk 9 mánaða tímabili en fyrstu ferðirnar voru farnar 1. mars. Samkvæmt frétt Gentle Giants var nóvember einstakur, þar sem hægt var að sigla alla daga og flóinn fullur af lífi. Þegar best lét sáust 30 hnúfubakar í sömu ferðinni auk annarra tegunda svo sem hrefnur, og höfrungar.
Hvalasafnið á Húsavík sigldi inn í veturinn eftir vel heppnað sumar þar sem gestafjöldi endaði í yfir 31 þúsund manns. Opið var alla daga frá 1. apríl- 31. október. Frá byrjun nóvember og fram í lok mars verður hinsvegar opið á virkum dögum frá 10-16.
Starfsmenn safnsins eru nú í óðaönn að vinna hefðbundin vetrarverkefni sem lúta að viðhaldi, skráningum muna, uppfærslum á sýningum og ýmsum samstarfsverkefnum svo eitthvað sé nefnt.
Mynd: Christian Schmidt