– þar sem beinin segja söguna
Á efri hæð safnsins er að finna Hvalaganginn, einstakt sýningarrými þar sem gestir geta virt fyrir sér stórfenglegar beinagrindur hvala og dýpkað skilning sinn á þessum mögnuðu sjávarrisum. Hér má skoða beinagrindur fjölda ólíkra hvalategunda, hver með sína sérstöku sögu að segja – allt frá lipurri hrefnu til risavaxins búrhvals.
Allar beinagrindur á sýningunni, fyrir utan náhvalinn, eru af dýrum sem fundist hafa látin af náttúrulegum orsökum eða vegna slysa. Náhvalurinn er sérstakur gripur safnsins, en hann var gjöf frá Grænlandi og var upprunalega veiddur til matar.
Í Hvalaganginum fá gestir einstakt tækifæri til að bera saman mismunandi hvalategundir, kanna hvernig líkamsbygging þeirra hefur þróast og aðlagast lífinu í hafinu og kynnast heimi þeirra betur með fræðandi textum og áhugaverðum staðreyndum. Þær tegundir sem hér eru til sýnis eru háhyrning, hrefnu, hnísu, náhval, hnúfubak, grindhval, andarnefju, norðsnjáldra, búrhval og skugganefju.
Við enda Hvalagangsins er lítil setustofa og notalegt bókahorn þar sem hægt er að slaka á og sökkva sér enn dýpra inn í heim hvalanna. Gestir geta notið kyrrðarinnar, flett bókum um hvali og hafið og velt fyrir sér þeim fjölmörgu undrum sem hafið geymir.
Hvalagangurinn er friðsæll og heillandi staður sem gefur gestum færi á að upplifa nálægð við hvalina á einstakan hátt – í gegnum bein þeirra, sem bera glöggt vitni um stærð, fjölbreytni og einstök undur þessara áhrifamiklu dýra.