„Arctic Creatures“ er samvinnuverkefni þriggja íslenskra æskuvina; myndlistarmannsins Hrafnkels Sigurðssonar, kvikmyndagerðarmannsins / leikstjórans Óskars Jónassonar og leikarans / leikhúsleikstjórans Stefáns Jónssonar. Frá árinu 2012 hafa þeir unnið að einstöku verkefni sem sameinar sköpunarhæfileika þeirra og áhugamál.
Í ljósmyndaröð frá óbyggðum Íslands setja listamennirnir sig í hlutverk ýmissa persóna sem gætu verið úr goðafræðunum eða endurgera atriði úr þekktum listaverkum. Klæðnaðurinn er oft einfaldur, hrár, berskjaldaður eða lítill sem enginn. Myndefnið er bæði spunnið og sviðsett á staðnum, þar sem tilfallandi gróður eða sjórekið plast er notað sem klæðnaður eða leikmunir.
Ljósmyndirnar eru hugmyndaríkt sambland af gríni og alvöru. Sviðsetningarnar virðast vera sjálfsprottnar en eru þó vandlega útfærðar, þannig að úr verður eitthvað sem býður upp á dýpri túlkun. Vangaveltur kvikna um vítt og breitt svið tilfinningarófsins, sem og samspil listarinnar og mannkynssögunnar við umhverfi sitt.
Aðaluppistaða sýningarinnar eru 24 ljósmyndum frá ferðum þremenninganna um óbyggðir Íslands. Auk hins sjónræna eru verkin frásagnir sem byggja brýr á milli náttúru og menningar, fortíðar og nútíðar. Með því að nota það sem fyrirfinnst í náttúrunni á hugmyndaríkan hátt, vekja „Arctic Creatures“ ekki eingöngu kátínu, heldur kveikja líka samtal um hvernig við skynjum og höfum áhrif á náttúrulegat umhverfi okkar.
Sýnigin stendur til 31. september 2024