Hvalveiðar við Ísland

Hvalir hafa verið verðmætt veiðifang frá því að landnám hófst á Íslandi. Fyrst um sinn voru hvalveiðar Íslendinga þó frekar tækifærisveiðar en atvinnuveiðar. Aðallega nýttu Íslendingar hvalreka og veiddu hvali í litlum mæli fram á 20. öld. Lengst af voru það erlendar þjóðir sem stunduðu atvinnuveiðar á hvölum við Íslandsstrendur, fyrst Baskar og Hollendingar á 17. öld og síðar Norðmenn 200 árum seinna. Íslendingar hófu hins vegar ekki atvinnuveiðar á hvölum fyrr en eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Sýningin rekur sögu hvalveiða við Ísland fram til dagsins í dag, en á síðustu 20 árum hefur orðið viðsnúningur í hvalnytjum Íslendinga, þar sem hvalaskoðun vex og dafnar í sátt við náttúru og samfélag, á meðan veiðar stórhvala eru á undanhaldi.