Hvalreki

Dauður hvalur á hafsbotni verður fæðuauðlind þúsunda lífvera. Hval sem sekkur niður á hyldýpi má líkja við vatnsból í eyðimörk. Uppspretta lífs.

Hið sama má segja um hval sem rekur á fjöru. Hvalreki gat verið lífsbjörg strandþjóða fyrr á tímum. Fólk sameinaðist við að verka dýrið og nýta á fjölbreyttan hátt. Slík sjálfbær nýting á hval er hluti af menningu og hefð strandþjóða víða um heim.

Þessi sýning fjallar um mikilvægi hvalreka fyrir íslenskt samfélag. Minningin lifir enn í orðinu sjálfu, en í dag er „hvalreki“ notað um „óvænt stórhapp“.