Jón Guðmundsson fæddist árið 1574. Hann ólst upp á vestfjörðum og var frá fyrstu tíð forvitinn og athugull. Hann hlaut ekki formlega menntun en drakk í sig allan þann fróðleik sem hann komst yfir og fékk síðar viðurnefnið hinn lærði. Hann var fræðimaður, handritaskrifari, fær handverksmaður, lækningamaður og líklega almennt álitinn fjölkunnugur. Í skrifum og teikningum Jóns sameinast hinn forni menningararfur, hjátrú alþýðunnar og fræðimennska.
Sýningin er unnin upp úr handriti Jóns, Íslands aðskiljanlegar náttúrur sem er fyrsta ritið á íslensku um náttúru Íslands. Raunsæjar teikningar Jóns af nokkrum hvalategundum eru taldar vera elstu varðveittu heimildir um útlit þessara dýra, sér í lagi þær tegundir sem halda til í Norður-Íshafi, svo sem mjaldur og náhvalur.
Sýningin er unnin í samstarfi við Safnahúsið á Húsavík sem hefur að geyma safneign Náttúrugripasafns Þingeyinga, auk sýningar úr Byggðasafni SuðurÞingeyinga, Sjóminjasafn, Héraðsskjalasafn, Ljósmyndasafn og safneign Myndlistarsafns Þingeyinga.
Ensk þýðing handrits er eftir Viðar Hreinsson og Vicky Szabo.
Sýningin fékk úthlutun úr safnasjóði Safnaráðs.