Við strendur og á grunnsævi dafnar heillandi veröld sem iðar af fjölbreyttu lífi. Þar gegna þörungar mikilvægu hlutverki. Þeir mynda undirstöðu auðugs og fjölbreytts lífríkis og eru lykiltegundir í búsvæði sem líkt hefur verið við regnskóga vegna þess hve mikið súrefni er framleitt þar. Áætlað hefur verið að einfruma og fjölfruma þörungar í sjó framleiði meira en helminginn af öllu súrefni andrúmsloftsins.
Þang og þari eru mikilvægar lífverur sem veita mikla vistkerfisþjónustu. Þeir mynda neðansjávarskóga sem hýsa fjölbreytt samfélög nytjategunda og annarra lífvera, sjófugla, sela, fiska, hryggleysingja og þörunga, auk þess að skila miklu magni af lífrænum efnum inn í vistkerfi strandsvæða.
Þari finnst aðeins í fremur köldum sjó. Í kaldari sjó er yfirleitt meira af næringarefnum.
Þaraskógum er í auknum mæli ógnað af margvíslegum mannlegum áhrifum, þar á meðal loftslagsbreytingum, ofveiði og þaratöku.