Hvað er hvalur?

Hvalir eru spendýr eins og maðurinn. Í æðum þeirra rennur heitt blóð sem þýðir að þeir viðhalda jöfnum líkamshita (37°C). Þeir eru með lungu og anda að sér súrefni. Þegar hvalir aðlöguðust lífi í vatni þróuðust nasir þeirra í blástursop sem nú er ofan á höfðinu. Framfætur urðu að bægslum, í þeim er þó enn eitt upphandleggsbein, tvö framhandleggsbein, úlnliðsbein og fjögur til fimm miðhandarbein og kjúkur. Afturfætur hurfu, en tvö bein úr mjaðmagrindinni er enn að finna í hvölum. Þau liggja hvort sínum megin við kynfærin og styðja þar við samdráttar vöðva.

Afkvæmi þeirra vaxa í móðurkviði og fá næringu frá legköku á meðgöngutímanum og þegar kálfur er kominn í heiminn drekkur hann móðurmjólk. Líkaminn er straumlínulagaður og ekki lengur þakin feldi, nánast öll líkamshár eru horfin. Rófan breyttist í kraftmikinn sporð og tengist hryggjarsúlunni. Hvalir eru því býsna ólíkir nánustu ættingjum sínum á landi.

Tannhvalir og skíðishvalir:

Hið fjölbreytta fæðuval í heimshöfunum hefur haft áhrif á þróun hvala í tvo undirættbálka: skíðishvali, sem hafa skíðisplötur eða skíði í efri skolti munnsins og tannhvali, sem geta gripið fæðuna með tönnum. Báðir undirættbálkar lifa á fæðu sem finna má á öllum stigum fæðukeðjunnar.

Skíðin virka eins og sigti sem sía fæðuna úr sjónum. Hvalurinn opnar munninn og gleypir mikið magn af fæðuríkum sjó, síðan lokar hann munninum, sjórinn þrýstist út á milli skíðanna og eftir situr fæðan sem hvalurinn rennir niður með tungunni.

Einn undirflokkur skíðishvala eru svokallaðir reyðarhvalir; steypireyður, langreyður, sandreyður, hrefna og hnúfubakur. Þessir hvalir eru með rengi sem nær frá neðri skolti aftur á maga. Rengið gerir hvölunum mögulegt að gleypa mikið magn af sjó því rengið þenst út eins og blaðra. Steypireyður getur gleypt 50 tonn af sjó í einu.

Tennur tannhvala eru flestar keilulaga og nýtast því ekki til að tyggja, heldur til að grípa og rífa bráðina í sig. Líklegt er þó að hvalir með fáar eða ósýnilegar tennur sogi fæðuna snöggt upp í munninn og að þeir noti tunguna til að mynda sogið. Hægt er að greina aldur hvala út frá árhringjum í tönnum þeirra.

Hvað borða hvalir:

Hið fjölbreytta fæðuval í heimshöfunum hefur haft áhrif á þróun hvala í tvo undirættbálka: skíðishvali, sem hafa skíðisplötur eða skíði í efri skolti munnsins og tannhvali, sem geta gripið fæðuna með tönnum. Báðir undirættbálkar lifa á fæðu sem finna má á öllum stigum fæðukeðjunnar.

Skíðishvalir lifa að langmestu leyti á svifi, smágerðum svifdýrum sem mynda stærsta fæðuflokkinn í sjónum. Önnur fæða skíðishvala samanstendur af átu, krabbafló, sandsíli, loðnu og síld. Sandlægjan og Grænlandssléttbakurinn lifa einnig á fjölbreyttu úrvali hryggleysingja, s.s. marflóm og ýmsum skeldýrum.

Skíðin virka eins og sigti sem síar fæðuna úr sjónum. Hvalurinn opnar munninn og gleypir mikið magn af fæðuríkum sjó, síðan lokar hann munninum, sjórinn þrýstist út á milli skíðanna og eftir situr fæðan sem hvalurinn rennir niður með tungunni.

Aðalfæða tannhvala er fiskur, svo sem síli, loðna, síld, lúða, túnfiskur, hákarl, smokkfiskur og kolkrabbi. Tegund fæðunnar fer oftast eftir stærð hvalsins og tannafjölda.

Tennur hvala eru flestar keilulaga að lögun og nýtast því ekki til að tyggja heldur til að grípa og rífa bráðina í sig. Svínhveli og búrhvalir með fáar sýnilegar tennur eða tennur einungis í neðri skolti lifa fyrst og fremst á lindýrum, svo sem smokkfiski og kolkrabba.

Hægt er að greina aldur hvala út frá árhringjum í tönnum þeirra. Hvalir hafa fjórskiptan maga til að auðvelda meltingu ótugginnar fæðu. Fremsti hluti magans inniheldur oft steina, sand og skeljabrot, en vöðvahreyfingar sjá um niðurbrot fæðunnar.

Hvalir fullnægja vatnsþörf sinni að mestu með fæðunni. Nýrun sjá um að aðskilja saltið úr sjónum sem þeir gleypa með fæðunni og geyma vatnsbirgðir líkamans.

Skemmtileg staðreynd: Ein helsta fæða búrhvala er blekfiskur af ýmsum stærðum. Goggar blekfiska meltast ekki, heldur safnast upp í maganum og valda ertingu eða bólgu. Úr bólgunni seytlar svo þykkur gráleitur vökvi sem safnast fyrir í þörmunum. Úrgangsefni skiljast frá vökvanum og eftir situr vaxkennt efni sem kallað er ambur. Það var afar eftirsótt og verðmætt fyrr á öldum, notað til ilmvatnsgerðar. Gerviefni hafa nú tekið við hlutverki ambursins enda banna alþjóðalög alla verslun með hvalaafurðir.

Hvernig borða hvalir?

Tannhvalir þurfa að nærast allan ársins hring og halda sig yfirleitt á svæðum þar sem fæðuframboð er nægjanlegt. Fæðuöflun skíðishvala takmarkast hins vegar fæðusvæði þeirra. Á fæðutímabilinu bæta þeir á sig um það bil 40% af eigin líkamsþyngd. Megnið af þessari þyngdaraukningu fer í spikið sem er þeirra forðabúr og minnkar eftir því sem líður á árið. Á veturna ferðast skíðishvalir í sex til átta mánuði í heitari sjó við miðbaug þar sem þeir bera kálfa sína. Á þessu tímabili éta þeir lítið sem ekkert þar sem lítil fæða er til staðar.

Einn undirflokkur skíðishvala eru svokallaðir reyðarhvalir; steypireyður, langreyður, sandreyður, hrefna og hnúfubakur. Þessir hvalir eru með rengi sem nær frá neðri skolti aftur á maga. Rengið gerir hvölunum mögulegt að gleypa mikið magn af sjó því rengið þenst út eins og blaðra og getur t.d. steypireyður gleypt 50 tonn af sjó í einu.

Sléttbakar eru með stærstu, lengstu og fíngerðustu skíðin. Þau gera hvölunum mögulegt að sigta smæsta dýrasvifið úr yfirborði sjávar. Svifið er alla jafna ekki stærra en hrísgrjón. Þeir synda eftir yfirborði sjávar með munninn opinn og sigta alla þá fæðu sem lendir upp í þeim.

Sandlægjan er með smæstu skíðin. Hún lifir fyrst og fremst á botndýrum sem hún finnur á grunnsævi. Sandlægjan skefur fæðuna, svo sem marflær, upp úr setlögunum með neðri kjálkanum og sigtar hana frá sjónum með skíðunum.

Ein sérstæðasta aðferð hvala við fæðuöflun er svokallað loftbólunet sem Hnúfubakar blása til þess að fanga fisk. Til þess að búa til loftbólunet kafa hvalirnir undir fiskitorfu og blása loftbólum út um blástursopið til þess að smala torfunni upp að yfirborðinu. Einn hvalur leiðir yfirleitt veiðina og hinir hvalirnir aðstoða. Leiðtoginn ber ábyrgð á því að búa til loftbólunetið og hinir hvalirnir umkringja fiskitorfuna og synda með henni í spíral upp að yfirborðinu. Hvalirnir sem synda með torfunni upp að yfirborði hafa munninn opinn og gleypa fiska úr torfunni sem þeir hafa fangað í netið.