Hvalasafnið á Húsavík opnaði á vordögum 2019 veglega afmælissýningu í tilefni 20 ára afmælis safnsins ári áður.
Á næstunni munu birtast kaflar úr sögu safnsins hér á hvalasafn.is. Við hefjum leik árið 1992 en líkt og í öllum góðum sögum fylgir smá forsaga.
Uppruna þess að Hvalasafnið á Húsavík varð til má rekja til tilraunaferða í hvalaskoðun sem fyrst voru farnar frá Höfn í Hornafirði sumrin 1992-1994. Í fyrstu ferðinni var breskur leiðsögumaður Mark Carwardine að nafni ásamt Ásbirni Björgvinssyni sem síðar átti eftir að stofna Hvalasafnið á Húsavík. Þetta voru langar siglingar eða um 8 klst. Árið 1994 hófust hvalaskoðunarferðir á Húsavík hjá Arnari Sigurðssyni sem rak fyrirtækið Sjóferðir Arnars. Ári síðar komu nokkrir hópar í hvalaskoðun á Húsavík, meðal annars frá Discover the World. Hval hafði þá fækkað í nágrenni Hafnar, auk þess sem siglingatími var mun styttri á Skjálfanda. Vitað var að svæðið væri gamalt hrefnuveiðisvæði og því ætti að vera hval að finna. Haldið var námskeið í Keflavík 1995 þar sem fjallað var um hvalaskoðun sem atvinnugrein. Fengnir voru erlendir fyrirlesarar meðal annars Erich Hoyt til að gefa innsýn í þessa atvinnugrein sem átti eftir að verða gríðarstór síðarmeir. Þetta sumar fóru voru tvö fyrirtæki starfrækt í hvalaskoðun á Húsavík, Norðursigling og Sjóferðir Arnars.


