Friðun hnúfubaks

Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS, áður LÍÚ), Ólafur H. Marteinsson, sagði við Morgunblaðið 14. mars að „Hvað loðnustofninn varðar þá liggur algerlega í augum uppi að menn þurfa að taka miklu meira tillit til afráns hvalastofna en gert hefur verið.“ En bætir við að hnúfubakur sé reyndar friðaður og því bannað að skjóta hann.

Alþjóðahvalveiðiráðið friðaði hnúfubak í Norður-Atlantshafi haustið 1954. Ísland gerði ekki fyrirvara við þá ákvörðun Hvalveiðiráðsins og er því bundið af henni. Á hinn bóginn mótmælti Ísland friðun steypireyðar í Norður-Atlantshafi þegar Hvalveiðiráðið friðaði þá tegund ári síðar, en íslensk stjórnvöld drógu þau mótmæli til baka árið 1960 þegar 37 steypireyðar höfðu verið skotnar í trássi við samþykkt ráðsins.

 

Breytingar á vísindaáætlun 1986

Á fundi Alþingis 17. mars 1986 gerði þáverandi sjávarútvegsráðherra grein fyrir breytingum á fyrirhugaðri áætlun um veiðar á hvölum í vísindaskyni. Ein breytingin, númer 9, var að „Áætlanir um hugsanlegar tilraunaveiðar á friðuðum hvalategundum, svo sem hnúfubak og steypireyði, hafa verið felldar úr áætluninni.“

Ísland varð aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu á ný árið 2002 eftir 10 ára fjarveru. Við inngönguna setti Ísland einhliða skilyrði um að landið skyldi ekki bundið af ákvörðun ráðsins frá árinu 1982 um bann við hvalveiðum (núllkvóti), sem tók gildi árið 1986 í Norður-Atlantshafi. Engin fyrirvari var þó gerður við fyrrgreinda ákvörðun Hvalveiðiráðsins frá árinu 1954 um friðun hnúfubaks. Hið sama gilti um friðun steypireyðar, sem Ísland féllst á árið 1960.

Það er því tómt mál að tala um veiðar á hnúfubak til að telja loðnur í maga dýrsins. Slíkar aðferðir hafa ekki gefið góða raun. Til dæmis má benda á svar sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar,  í september 2008 við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um um „vísindaveiðar [svo] á hrefnu“.

Hið stutta svar ráðherrans var: „Ekki er tímabært að setja fram tölur um heildarafrán hrefnunnar á einstökum fæðutegundum fyrr en að lokinni fullnaðarvinnslu sýna og að teknu tilliti til svæðisbreytileika o.fl. í fjölstofnalíkani. Þó er ljóst að þorskur, ýsa og annar bolfiskur virðist vera mun hærra hlutfall á matseðli hrefnunnar en áður var talið, a.m.k. á umræddu árabili.“

Ráðherrann upplýsti Alþingi einnig um, að frumkvæði Jóns Gunnarssonar, að ekki lægi fyrir „hvenær niðurstöður birtast, enda um flókið verkefni að ræða þar sem m.a. þarf að taka tillit til breyttra aðstæðna á Íslandsmiðum undanfarin missiri.“

Mörg hundruð milljóna króna rannsóknir á magainnihaldi hrafnreyða liggja enn ekki fyrir, nú 17 árum síðar. Enn síður hafa vísindamenn Hafró lagt fram tölur um hversu margar hrefnur verður að veiða til að auka fiskgegnd á Íslandsmiðum.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra upplýsti Alþingi 29. janúar 2019 um að ekkert væri hægt að fullyrða um málið:

Eins og Hafrannsóknastofnun hefur sagt … hafa sérfræðingar okkar á þessu sviði innan Hafrannsóknastofnunar margítrekað að spurningar varðandi afránið eru stærðir sem mjög erfitt er svara. Vitneskjan um samspil þessara þátta í lífríkinu er af mjög skornum skammti. Nýtingarstefna Íslendinga hefur verið og er raunar enn í dag hugsuð út frá stöðu og ástandi einstakra stofnana, ekki af samspili lífkerfisins í heild.

Loðnubrestur er grafalvarlegt mál

Útgerðarmenn, sjómenn, verkafólk, sveitarfélög og landið í heild verða af miklum tekjum vegna loðnubrestsins. Ekkert bendir þó til að hnúfubakurinn sé sökudólgurinn, frekar en til dæmis selir eða sjófuglar. Miklu líklegra er að breytingar á hitastigi sjávar skýri breytingar í göngu loðnunnar. Það stendur hins vegar í stjórnendum útgerðarfyrirtækjanna að ræða loftslagsógnina og taka ábyrgð á eigin losun.

Nú er spurningin hvort ekki sé kominn tími fyrir forystumenn í sjávarútvegi að hysja upp um sig brækurnar og ræða ástand sjávar út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir, í stað hjáfræði um um ofát hvala á nytjastofnum.

Grein þessi var birt í Morgunblaðinu, laugardaginn 29. mars 2025

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
Facebook
Twitter
LinkedIn

More to explorer

A Whale Carcass in North Iceland

Last week staff from the Húsavík Whale Museum ventured to Eyjafjörður to take a closer look at a whale carcass on the

Lokað er fyrir athugasemdir.