Hvalasafnið á Húsavík fékk heldur betur upplyftingu í dag þegar að listaverk eftir spænsku listakonuna Renötu Ortega voru sett upp utan á suðurhlið hússins. Það var Trésmiðjan Val ehf. sem sá um útfærslu og uppsetningu á listaverkunum. Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra safnsins kom hugmyndin um listaverkin upp í tengslum við miklar endurbætur á húsinu. Starfsfólki safnsins hafi langað til þess að útbúa ákveðið tilbrigði af hinum auðkennandi hvalamálverkum sem einkenndu ytra útlit safnsins á árunum 2001-2018. Listaverkin hafi því þótt kærkomin þar sem þau hylja gamla stálglugga sem voru farnir að láta verulega á sjá.
Heiðar sem einnig situr í Framkvæmda- og skipulagsráði Norðurþings segist vona að uppátækið hvetji fleiri til að gera slíkt hið sama. Listaverk sem þessi séu hin mesta húsprýði og lífgi upp á tilveruna.


